Bergþór var þangað mættur sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis til að ræða samgönguáætlun en þetta var fyrsta ræða hans á þingi eftir að hann sneri til baka úr leyfi sem hann tók sér eftir að Klausturs-málið svokallað kom upp.
Þegar Bergþór hafði nýhafið ræðu sína stilltu þau Björn Leví og Þórhildur Sunna sér upp sitthvoru megin við ræðupúltið með svokallaðar FO-húfur frá UN-Women sem er skammstöfun fyrir „Fokk ofbeldi“.
Þórhildur Sunna sagði í samtali við Vísi að um hefði veri að ræða þögul mótmæli af þeirra hálfu vegna veru Bergþórs Ólasonará þingi.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sat í stóli forseta Alþingis en hvorki hann né Bergþór hreyfðu við andmælum þegar Píratarnir tóku upp á þessu.
„Forseti vill átelja framkomu háttvirtra þingmanna Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og Björns Leví Gunnarssonar við upphaf ræðu háttvirts þingmanns Bergþórs Ólasonar,“ sagði Bryndís.
Vísaði hún í orð fyrrverandi forseta Alþingis, Árna Þórs Sigurðssonar, sem voru látin falla eftir að Björn Valur Gíslason, þáverandi þingmaður Vinstri grænna, og Lúðvík Geirsson, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, gengu með blöð fram hjá ræðupúlti Alþingis sem ritað var á „Málþóf“ þegar Illugi Gunnarsson, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var að ræða fjárlagafrumvarp ársins 2013.
„Jafnframt vill forseti minna á orð fyrrverandi forseta þings sem sögð voru við álíka tilefni í þingsal árið 2012 þegar hann sagði að atvik af þessum toga væri ekki við hæfi og að í þessum sal tjái menn sjónarmið sín og viðhorf úr ræðustól,“ sagði Bryndís á þingi í dag.
Bæði Lúðvík og Björn Valur báðu Illuga afsökunar á framferði sínu síðar meir.