Það er mikilvægt að við tökum upplýsta afstöðu til skjátíma barna og horfum til reynslu og ólíkra sjónarmiða. Landssamband sjálfstæðiskvenna stendur fyrir fundi um farsíma- og spjaldtölvunotkun barna og ungmenna í Valhöll klukkan 20:00 í kvöld. Þar munum við ræða gagnsemi og áhættu sem ný tækni hefur á samfélagið okkar. Hvernig er hægt að nýta tækni í skólum og hvernig snýr þetta að félagslegum þáttum í lífi hvers barns. Meðal annars munum við velta velta því fyrir okkur hvenær skjátími er kominn yfir hættumörk?
Nauðsynlegt að borgin taki afstöðu
Þrír góðir gestir munu flytja erindi til að skoða málin frá ólíkum hliðum. Björn Hjálmarsson, barnalæknir á BUGL, mun ræða um afleiðingar mikillar notkunar og rafræns skjáheilkennis ef netnotkun verður agalaus, sem og mikilvægi þess að jafnvægi sé á skjátíma barna. Þá munBjörn Gunnlaugsson, kennari og fyrrum verkefnisstjóri spjaldtölvuinnleiðingar í Kópavogi tala um gagnsemi nútímatækni fyrir börn og ungmenni og mikilvægi þess að skólastarf taki mið af samfélagsbreytingum til að auka áhuga nemenda á námi. Síðan mun hún Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, félagsfræðingur og og ráðgjafi hjá Þitt virði fjalla um viðhorf barna og hlutverk foreldra þegar kemur að skjátíma og tækjanotkun og hvernig foreldrar geta verið fyrirmyndir.
Það verður áhugavert að hlusta á þau erindi sem verða flutt á fundinum. Á sama tíma og tæknin hefur auðveldað samskipti og opnað fyrir nýjum tækifærum þá þarf að læra að fara með og nýta rétt. Ég vil taka málið upp í borgarstjórn Reykjavíkur enda nauðsynlegt að borgin taki afstöðu um farsíma og spjaldtölvunotkun barna og ungmenna á skólatímum. Mín afstaða er skýr, við eigum að setja reglur sem takmarka notkun farsíma barna á skólatíma. Bæði til að þau verði síður fyrir truflun á meðan kennslu stendur en líka til að efla félagslegu þættina. Skólastarf verður alltaf undir áhrifum tækniþróunar, sem er gott mál, enda mikilvægt að nýta tækni við kennslu, en það þarf líka að finna jafnvægi á milli skjásins og kennslunnar.
Valgerður Sigurðardóttir
Borgarfulltrúi