Á þriðja tug mótmælenda kom saman til þögulla mótmæla á Hólmsheiði þegar Nara mætti til að hefja afplánun þeirra þriggja mánaða sem hún þarf að sitja inni en hún segist hafa mætt miklu óréttlæti í réttarkerfinu.
Þær Eydís Eir Brynju-Björnsdóttir og Júlía Birgisdóttir skipulögðu mótmælin en sjálfar eru þær þolendur kynferðisofbeldis sem hafa slæma reynslu af réttarkerfinu. „Það fer svo í rettlætiskennd okkar að við megum ekki verja okkur ef á okkur er ráðist án þess að eiga það í hættu að vera dæmdar í fangelsi,“ segja þær í skriflegu svari til fréttastofu.

Nara kvaddi vini og vandamenn fyrir utan fangelsið áður en hún hringdi bjöllunni og gekk inn í fangelsið síðdegis í dag. „Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem fólk hefur mótmælt fyrir utan fangelsið," sagði Nara áður en hún kvaddi. „Takk stelpur fyrir að gera þetta. Ég er mjög þakklát. Ég er útlendingur en við erum systur þótt við séum ekki frá sama stað. Þessar aðstæður halda okkur saman.“
