Hægri öfgamaðurinn sem myrti að minnsta kosti 49 manns í tveimur moskum í borginni Christchurch í Nýja-Sjálandi var að morgni laugardags að staðartíma leiddur fyrir dómara þar sem honum var gerð grein fyrir ákærum á hendur honum. Tveir aðrir eru einnig í haldi lögreglu.
Hryðjuverkamaðurinn er 28 ára Ástrali að nafni Brenton Tarrant. Hann er fyrrverandi einkaþjálfari og yfirlýstur fasisti. Í réttarsalnum gjóaði hann augunum við og við til fjölmiðla sem voru viðstaddir.
Tarrant mætti fyrir dómara í handjárnum og virtist svipbrigðalaus á meðan dómarinn talaði. Gert er ráð fyrir að ákæruliðum á hendur honum fjölgi talsvert eftir því sem rannsókn málsins vindur fram.
Tarrant fór ekki fram á að vera látinn laus gegn tryggingu og var færður aftur í varðhald en hann mun þurfa að mæta aftur fyrir dómara 5. apríl næstkomandi.
Fyrir utan réttarsalinn voru synir Daoud Nabi, afgansks manns á áttræðisaldri sem var myrtur í hryðjuverkaárásinni. Þeir kröfðust réttlætis og annar þeirra sagði að tilfinningin sem bærðist um innra með honum í kjölfar morðsins á föður hans væri hryllileg.
„Þetta er hryllilegt, tilfinningin er hryllileg.“
Nabi var skotinn til bana í Deans Ave moskunni þar sem hann iðkaði trú sína. Hann lést við að skýla öðrum gestum fyrir kúluregni hryðjuverkamannsins.
Sjá nánar: Maður á áttræðisaldri fyrstur til að vera nafngreindur
Nabi var formaður samtaka Afgana í Nýja-Sjálandi en það eru samtök sem hverfast um að varðveita afganska menningu innan afganskra innflytjendasamfélaga og hjálpa innflytjendum að aðlagast samfélaginu í Nýja-Sjálandi.

