Víða var haldið upp á aþjóðabaráttudag kvenna þann 8. mars síðastliðinn. Viðburður var haldinn í kauphöllinni í samstarfi við UN Women á Íslandi og Samtökum atvinnulífsins. Sigyn Jónsdóttir, formaður ungra athafnakvenna, hringdi bjöllunni í kauphöllinni inn fyrir jafnrétti kynjanna. Jafnframt var hálfgert kvennaverkfall þar sem um 700 félagsmenn Eflingar sem starfa við ræstingar á hótelum og gistiheimilum lögðu niður störf.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður og eigandi Pressunnar hnaut um þá staðreynd að á meðan hundruð þerna lögðu niður störf skáluðu konur í kauphöllinni. Hann heldur því fram að þar hafi einvörðungu verið konur sem telja að jafnrétti felist helst í því að fá að sitja í stjórnum stórra félaga. „Þannig er jafnréttisbarátta ekki alltaf um jafnrétti heldur líka um að tryggja forréttindi,“ segir Sigurður G. í færslunni.
Þessu hafnar Rakel Sveinsdóttir formaður FKA, félags kvenna í atvinnulífinu, alfarið. Hún var viðmælandi í Bítinu á Bylgjunni í morgun. „Jafnréttisbarátta helst alltaf í hendur sem svona ein stór mynd og það er aldrei rétt að fara að höggva í eða etja konum saman sem eru að berjast á einhverjum vígstöðvum. Við þurfum enn þá að hafa töluvert fyrir hlutunum.“
Hún bendir jafnframt á að jafnréttisbaráttan á sér stað á mörgum stigum og þarf að haldast í hendur til að hægt sé að brjóta glerþakið og tryggja aukið réttlæti. Óeðlilegt er að konur séu fyrst og fremst á lágmarkslaunum. Þá sé einnig óeðlilegt hversu mikið hallar á konur í fjármálageiranum þá sérstaklega í einkageiranum.
Konur framkvæmdastjórar í 20% tilvika
Samkvæmt tölum Hagstofunnar má sjá að heldur hallar á hlut kvenna þegar kemur að starfi framkvæmdarstjóra fyrirtækja en konur gegna starfinu ekki nema í rétt rúmlega 20% tilvika.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar var rúmur helmingur kvenna 25-64 ára með háskólamenntun árið 2018, samanborið við rúmlega þriðjung karla á sama aldri. Þrátt fyrir það voru meðalatvinnutekjur kvenna þó einungis 72% af meðalatvinnutekjum karla með sömu menntun.