Hluthafar lögðu ÍSAM til 800 milljónir króna í fyrra samhliða 662 milljóna króna tapi fyrir tekjuskatt. Tapið jókst um 310 milljónir króna á milli ára.
Annars vegar var um að ræða 500 milljóna króna hlutafjáraukningu og hins vegar 300 milljóna króna víkjandi lán frá systurfélagi. Slík lán eru ígildi eiginfjár. ÍSAM, sem á meðal annars Mylluna og er með umboð á borð við Ariel, Gillette, Duracell og Pampers, er í eigu Guðbjargar M. Matthíasdóttur og fjölskyldu. Hermann Stefánsson var ráðinn forstjóri ÍSAM í október.
Fjölskyldan keypti ÍSAM árið 2014 í gegnum eignarhaldsfélagið Kristin. Þau eru aðaleigendur Ísfélags Vestmannaeyja, eiga meirihluta í Odda og hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins.
Tekjur ÍSAM jukust um 5 prósent á milli ára og námu 12,6 milljörðum króna árið 2018. Eigið fé félagsins var 1,9 milljarðar króna og var eiginfjárhlutfallið 23 prósent samanborið við 22 prósent árið áður.
