Ég skora á alla sem muna árið 1994 að hugsa til baka til borgarinnar eins og hún var þá. Reykjavíkurlistinn færði borgina til nútímans. Á fyrstu tveimur kjörtímabilum hans jókst hlutfall barna með leikskólapláss í Reykjavík úr 30% úr 80%. Þetta var einfaldlega bylting. Hlutur kvenna í stjórnunarstöðum óx úr 10% 1994 í 50% 2002. Launamunur kynjanna var varla til sem hugtak. Í tíð Reykjavíkurlistans var hann kortlagður og gripið til aðgerða svo hann dróst markvisst saman. Kvenfrelsi og femínismi varð sjálfsagður meginstraumur í stjórnmálunum.

Reykjavíkurlistinn gjörbreytti þjónustu við borgarbúa, efldi velferðarþjónustu og færði hana nær íbúum með því að setja upp þjónustumiðstöðvar í öllum hverfi og stofnun hverfaráða. Með nútímavæðingu borgarinnar og gagngerri tiltekt breytti Reykjavíkurlistinn borgarkerfinu þar sem skýrum leikreglum var fylgt og fagleg vinnubrögð voru iðkuð. Gagnsæjar leikreglur og útboð komu í stað flokksskírteina. Síðast en ekki síst var grettistaki lyft í menningarmálum með Listasafni Reykjavíkur, Hörpu og eflingu menningarstofnana borgarinnar. Hnignun miðborgarinnar var snúið við, aðdráttarafl borgarinnar aukið og borgarbragurinn er orðinn alþjóðlegri.
Við þessi tímamót í íslenskri stjórnmálasögu er vert að staldra við. Á þeim 25 árum frá því að Ingibjörg Sólrún tók við lyklunum að ráðhúsinu hefur Reykjavík vaxið og dafnað hraðar og er nú öflugri en nokkru sinni. Borgin hefur aldrei verið eins skemmtileg, fjölbreytt, kraftmikil og eftirsótt. Reykjavík er grænni en nokkru sinni, framsæknari og réttlátari. Þetta eigum við frumkvöðlunum sem stóðu að stofnun Reykjavíkurlistans að þakka. Til hamingju með daginn!
Höfundur er borgarstjóri Reykjavíkur.