Það er óhætt að segja að breska tónlistarmanninum Ed Sheeran hafi verið vel tekið á Laugardalsvelli í kvöld. Tónleikalætin heyrðust um alla Reykjavík en um þrjátíu þúsund manns eru sagðir hafa lagt leið sína á tónleikana í kvöld, sumir með miða en aðrir miðalausir.
Sheeran steig sjálfur á svið um klukkan níu og tók hvern slagarann á fætur öðrum. Þar má til dæmis nefna lögin Thinking Out Loud, Perfect og Shape of You, sem hlutu feiknagóðar viðtökur.
Þá var ekki annað að sjá en að Sheeran sjálfur hefði skemmt sér vel á tónleikunum í kvöld, enda hafði hann lýst yfir mikilli tilhlökkun á Instagram-reikningi sínum fyrr í dag. Þar sagðist hann njóta lífsins á Íslandi og mælti sér mót við aðdáendur sína á tónleikunum í kvöld og á morgun.
„Mér er sagt að einn af hverjum sjö Íslendingum verði á þessum tónleikum. Mega voff,“ skrifaði Sheeran.
Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari Vísis fangaði stemninguna á tónleikum Sheerans í kvöld. Myndir frá kvöldinu má sjá hér að neðan.