Mótmælendur hafa flykkst um götur yfir þrjátíu borga, þar á meðal í Lundúnum, Manchester, Leeds, York og Belfast. Mótmælendur í Lundúnum stöðvuðu meðal annars umferð í Whitehall, þar sem finna má fjölda ráðuneyta og ríkisstofnana.
Sjá einnig: „Algjör upplausn í breskum stjórnmálum“
Ákvörðun Boris hefur ollið reiði meðal þingmanna og almennings en andstæðingar hans telja ákvörðunina tilraun til þess að koma í veg fyrir að breska þingið geti haft áhrif eða komið í veg fyrir samningslausa útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Forsætisráðherrann hefur lýst því yfir að Bretland fari úr sambandinu þann 31. október næstkomandi, þó það feli í sér að farið verði út án samnings. Sérfræðingar telja að það myndi fela í sér mikla óvissu fyrir breskt samfélag og efnahagslíf.