Ingibjörg Sigurðardóttir og stöllur í Djurgården fengu á sig þrjú mörk gegn Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Kristianstad gerði jafntefli við Bunkeflo.
Ingibjörg var í byrjunarliði Djurgården en Guðrún Arnardóttir var ónotaður varamaður.
Julia Roddar kom gestunum frá Gautaborg yfir rétt fyrir hálfleikinn og Elin Rubensson tvöfaldaði forystuna í upphafi seinni hálfleiks.
Heimakonur náðu aðeins að klóra í bakkann en Rubensson bætti öðru marki sínu við og tryggði Gautaborg 3-1 sigur.
Sif Atladóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir voru í byrjunarliði Kristianstad sem sótti Bunkeflo heim.
Gestirnir í Kristianstad komust tvisvar yfir en tvisvar náðu heimakonur að jafna og lauk leiknum með 2-2 jafntefli.
Kristianstad er með 32 stig í 4. sæti eftir 18 leiki en Djurgården er í vandræðum, í fallsæti með 10 stig.
