Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson vissi upp á hár hvað hann var að gera þegar hann skipti yfir í Lemgo sem leikur í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta sem er almennt talið lakara lið en hann var í fyrir, Füchse Berlin.
Bjarki Már er í landsliðshópi Íslands sem mætir Svíum á næstu dögum. Hann er sem stendur markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar.
„Ég vildi komast í stærra hlutverk, ég var búinn að vera í Berlín í fjögur ár og þeir voru með margar stjörnur og marga sem eru í sviðsljósinu,“ sagði Bjarki í viðtali við Sportpakka Stöðvar 2 í kvöld.
„Ég veit hvað ég er góður og hvað ég get en markmiðið var að taka eitt skref aftur á bak og tvö áfram,“ sagði Bjarki einnig en viðtalið við Bjarka má sjá í spilaranum hér að ofan.

