Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sett frumvarpsdrög um breytingar á samkeppnislögum í samráðsgátt stjórnvalda. Þar sé meðal annars gert ráð fyrir að veltumörk tilkynningarskyldra samruna verði hækkuð og málsmeðferð þeirra einfölduð. Fyrirtæki meti sjálf hvort skilyrði undanþága til samruna séu uppfyllt, heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots og til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verði felldar brott.
Gylfi Magnússon formaður bankaráðs Seðlabankans, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi viðskiptaráðherra gagnrýndi þessar fyrirhuguðu breytingar á Facebook síðu sinni í gær. Nú ætti að láta blauta drauma fákeppnismógúla rætast með því að draga tennurnar úr samkeppniseftirliti á Íslandi eins og frekast væri unnt. Hann segir núgildandi ákvæði samkeppnislaga hafa mætt harðri andstöðu stærri fyrirtækja á sínum tíma.
Þú telur að það sé verið að draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu?
„Já, það leikur enginn vafi á því að til þess er leikurinn gerður. Það er annars vegar verið að taka heimild sem eftirlitið hefur haft til að kalla eftir breytingum á skipulagi fyrirtækja eins og það er kalað,“ segir Gylfi.
Þá eigi hins vegar að koma í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti borið niðurstöður áfrýjunarnefndar undir dómstóla og gætt þannig m.a. hagsmuna brotaþola.
„Þeir sem eru brotlegir eða málsaðilar meiga vísa slíkum úrskurðum til dómstóla. En ef eftirlitið mætti ekki gera það væri enginn sem gæti gætt hagsmuna þeirra sem eru þolendur brotanna. Neytendur og smærri fyrirtæki. Þannig að það yrði mjög skrýtin slagsíða að leyfa bara öðrum málsaðilanum að leita til dómstóla en ekki eftirlitinu,“ segir Gylfi.

„Já, ég skil nú ekki að þetta tengist á nokkur hátt starfi mínu þar. Ég hef hins vegar unnið að samkeppnismálum með margvíslegum hætti í gegnum tíðina. Verið formaður stjórnar Samkeppniseftirlitsins, verið ráðgjafi í samkeppnismálum og meira að segja ráðherra samkeppnismála. Ég er auðvitað fyrst og fremst að tala sem slíkur,“ segir Gylfi sem einnig hefur kennt samkeppnismál í Háskóla Íslands.
Hann svarar Halldóri Benjamín á Facebook síðu sinni í dag og segir að sjálfsagt væri þægilegra fyrir fákeppnismógúla landsins að þessi bankaráðsformaður segði sem minnst eða talaði kannski bara einu sinni á ári um ársreikning bankans.
Þannig að þrátt fyrir þessa gagnrýni munt þú ekki láta deigan síga og óhikað tjáð þig um þessi mál sem önnur?
„Já, já. Ég hef nú marg oft í gegnum tíðina verið beðinn um að segja minna. En það hefur ekki borið mikinn árangur til þessa,“ segir Gylfi Magnússon.