Steinþór, betur þekktur sem Steindi, segir að Sigurjón Sighvatsson, framleiðandi, hafi sagt honum og Gauki Úlfarssyni, leikstjóra, hvað „virki í dag“ og það sé víst þetta, gay vampírumynd. Þetta sagði Steindi á frumsýningu myndarinnar á föstudag en Ísland í dag fór og fylgdist með.
Myndin er gerð í samstarfi við Leikhópinn X, sem er leikhópur sem stofnaður var árið 2005. Steindi kynntist Hirti Sævari Steinasyni, aðalleikara myndarinnar við framleiðslu þáttanna Góðir landsmenn, sem sýndir voru á Stöð 2 í haust.
„Það sem mér finnst vera svo skemmtilegt við þetta er að við náðum einhvern vegin að gera mynd á engum tíma. Rúmri viku! Við hugsuðum alltaf: „Guð skapaði heiminn á sjö dögum, við getum skapað þorsta á sjö dögum.“ Við erum ekki minni menn,“ segir Steindi.
Það koma margir þekktir Íslendingar fram í myndinni, þar á meðal Ingvar E. Sigurðsson, Herra Hnetusmjör, Aron Már Ólafsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og svo lengi mætti telja.
Mikil aðsókn var á frumsýninguna og komu svo margir að opna þurfti nýjan sal til að sýna myndina í.
Hér að neðan má sjá myndir frá frumsýningunni.






