Bankareikningar tveggja af namibísku „hákörlunum“ svokölluðu í Namibíu hafa verið frystir vegna rannsóknar á meintri mútuþægni þeirra í Samherjamálinu. Frá þessu er greint í prentútgáfu dagblaðsins The Namibian sem kom út í morgun en Kjarninn greindi frá fyrstur íslenskra miðla.
Um er að ræða Sacky Shanghala, sem sagði af sér á dögunum sem dómsmálaráðherra Namibíu, og Tamson Hatukuilipi, kallaður Fitty, tengdason Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu.
Í frétt Namibian segir einnig að umræddir hákarlar hafi farið til Höfðaborgar í Suður-Afríku nýverið og ekki enn snúið aftur til Namibíu.
„Hákarlarnir“ svokölluðu er hópur valdamanna í Namibíu sem sagður er hafa þegið mútur frá Samherja fyrir ódýran hrossamakrílskvóta. Hópinn mynda áðurnefndir Fitty og Shanghala, auk James Hatukuilipi, frænda Fitty og stjórnarformanns sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor.
Greint var frá því í fréttaskýringaþættinum Kveik í síðustu viku að Fitty hefði kynnt stjórnendur Samherja fyrir tengdaföður sínum, Bernhard Esau, þáverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu. Samtals eiga hákarlarnir að hafa þegið að minnsta kosti 1,4 milljarða króna frá Samherja. Shangala og Esau sögðu báðir af sér í kjölfar umfjöllunar um Samherjamálið.
Bankareikningar tveggja „hákarla“ frystir

Tengdar fréttir

Kristján Þór boðaður á fund atvinnuveganefndar vegna Samherjaskjalanna
Rósa Björk Brynjólfsdóttir segir að málið sé af þeirri stærðargráðu að það sé afar brýnt að sjávarútvegsráðherra ræði sem allra fyrst við þingmenn.

Segist ekki hafa geta rekið ráðherrana þar sem þeir höfðu ekki verið dæmdir
Hage Geingob, forseti Namibíu, segir gagnrýni yfir því að hann hafi ekki rekið tvo ráðherra sem tengjast Samherjamálinu vera ranga.

Sólveig Anna telur framferði Þorsteins Más lágkúrulegt
Tekist var á um ýmsa fleti Samherjamálsins í Silfrinu í dag.