Þýsk stjórnvöld hafa gert bólusetningar gegn mislingum að skyldu. Foreldrar sem ekki láta bólusetja börn sín verða sektaðir.
Löggjöf um mislingavarnir var samþykkt á ríkisþingi Þýskalands í gær með stuðningi beggja stjórnarflokkanna, Kristilegra demókrata og Sósíaldemókrata. Flokkarnir höfðu sammælst um að koma löggjöfinni í gegn síðasta vor. Frumvarpið var einnig stutt af frjálslynda miðjuflokknum Frjálsum demókrötum.
Eini flokkurinn sem kaus alfarið gegn frumvarpinu var hinn þjóðernispopúlíski Valkostur fyrir Þýskaland en minni flokkar á vinstri vængnum voru klofnir í málinu.
„Þetta er barnaverndarlöggjöf í sinni tærustu mynd,“ sagði heilbrigðisráðherrann Jens Spahn þegar hann talaði fyrir frumvarpinu í þinginu.
Löggjöfin tekur gildi í mars á næsta ári og þá þurfa foreldrar í Þýskalandi að sýna fram á að börn þeirra séu bólusett fyrir mislingum áður en þau hefja leikskólavist. Ef svo er ekki fá börnin ekki vistina og foreldrar í kjölfarið sektaðir um 2.500 evrur, eða um 350 þúsund krónur. Starfsfólki grunnskóla, daggæslu, heilsugæslustöðva og fleiri stofnana verður einnig gert skylt að hafa eftirlit með bólusetningunum.
Mislingatilfellum hefur fjölgað mikið í Evrópu á undanförnum árum í takti við fækkun bólusetninga. Á þessu ári hafa þegar komið upp 500 tilfelli í Þýskalandi.
Erlent