Slysið varð síðdegis þann 8. mars 2018. Nissan fólskbifreið, bílaleigubíl, var ekið vestur Lyngdalsheiðarveg. Á sama tíma var Man vörubifreiðekið austur Lyngdalsheiðarveg. Skömmu áður en bifreiðarnar mættust á veginum var Nissan bifreiðinni ekið yfir miðlínu vegarins og yfir á rangan vegarhelming í veg fyrir Man vörubifreiðina.
Ökumaður vörubílsins nauðhemlaði en áreksturinn var óumflýjanlegur. Í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að áreksturinn hafi verið mjög harður og kastaðist fólksbifreiðin yfir á vegöxlina fyrir umferð í vestur og vörubifreiðin stöðvaðist utan vegar, hægra megin miðað við akstursátt.

Við rannsókn slyssins kom ekkert fram sem skýrt gæti hvers vegna fólksbifreiðinni var ekið yfir á öfugan vegarhelming.
„Aðstæður voru góðar og staða sólar með þeim hætti að ekki er talið að hún hafi hugsanlega skert sýn ökumanns Nissan bifreiðarinnar. Sennilega hefur ökumaður bifreiðarinnar sofnað eða misst athygli frá akstri bifreiðarinnar af öðrum ástæðum,“ segir í skýrslu nefndarinnar.
Ekkert kom fram um ástand bílsins sem skýrt gæti orsakir slyssins. Við bíltæknirannsókn kom hins vegar fram að hjólbarðar Nissan bifreiðarinnar fullnægðu ekki kröfum sem gerðar eru í gerðarlýsingu bifreiðarinnar um burðarþyngd á hjólbarða. Ekki er þó talið að þetta atriði hafi tengst orsökum slyssins.
Engu að síður er því beint til bílaleigunnar sem leigði bílinn út að gera ráðstafanir til þess að bifreiðar í hennar eigu séu búnar hjólbörðum sem uppfylla kröfur framleiðanda um burðarþyngd.