Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Þórð Má Jóhannesson og Sólveigu Pétursdóttur af 2,3 milljarða króna skaðabótakröfu félagsins Lyfjablóms ehf. vegna stjórnarhátta í fjárfestingarfélaginu Gnúpi.
Málið á rætur að rekja til ársins 2006 og taldi dómari ekki tilefni til að beita svokölluðu lengingarákvæði fyrningarlaga, en skaðabótamál fyrnast alla jafna á 10 árum.
Lyfjablómi var því gert að greiða þeim Þórði Má og Sólveigu tvær milljónir króna, hvoru um sig, í málskostnað að sögn mbl. Aðstandendur Lyfjablóms segja við Vísi að málinu verði áfrýjað.
Sjá einnig: Eignir þriggja kynslóða fuðruðu upp
Eigandi Lyfjablóms rakti málaferlin í ítarlegu máli við Bítið á Bylgjunni í lok nóvember síðastliðins. Þar bar hann Þórð sérstaklega þungum sökum, sakaði hann um margvíslegar blekkingar við stjórn Gnúps, sem eiga að hafa orðið til þess að milljarðar hafi tapast.
Dómkröfurnar í málinu voru tvær, alls upp á 2,3 milljarða. Önnur hljóðaði upp á 800 milljónir og laut að kaupum Þórðar á hlut í Gnúpi. Inn í það fléttast félög sem voru í eigu Kristins Björnssonar, en Sólveig Pétursdóttir situr í óskiptu búi eftir Kristinn og dróst þannig inn í dómsmálið. Síðari krafan, 1500 milljóna skaðabótakrafa, var tilkomin vegna hlutafjáraukningar í Gnúpi á síðari hluta árs 2007.