Freddie Ljungberg, bráðabirgðastjóri Arsenal, var niðurlútur eftir 1-2 tap liðsins fyrir Brighton á Emirates í kvöld.
Þetta var annar leikur Arsenal undir stjórn Svíans en liðið gerði 2-2 jafntefli við Norwich City í þeim fyrsta.
„Þetta var erfitt. Við mættum ekki til leiks í fyrri hálfleik og lögðum okkur ekki nógu mikið fram. Þú getur ekki byrjað svoleiðis,“ sagði Ljungberg eftir leikinn í kvöld.
„Við spiluðum betur í seinni hálfleik en þeir ógnuðu alltaf í skyndisóknum og við erum ekki með neitt sjálfstraust. Ég þarf að vinna í því og fylla leikmennina sjálfstrausti á ný.“
Ljungberg var afar ósáttur við frammistöðu Arsenal í fyrri hálfleik.
„Í hálfleik sögðum við: Þetta er ekki Arsenal, við verðum að reyna. Ég vildi sjá það frá þeim,“ sagði Ljungberg.
Arsenal er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið hefur ekki unnið í níu leikjum í röð í öllum keppnum.
Ljungberg: Þetta er ekki Arsenal

Tengdar fréttir

Brighton vann á Emirates og ófarir Arsenal halda áfram
Arsenal hefur ekki unnið í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni í röð.