Um heim allan dælast inn myndir á Instagram undir kassamerkinu #blackouttuesday og er það gert til að standa þétt við bakið á fólki sem verður fyrir kynþáttafordómum.
Miklar óeirðir og mótmæli fara nú fram víðs vegar um Bandaríkin vegna dauða George Floyd sem var kornið sem fyllti mælinn vestanhafs í baráttunni gegn kynþáttfordómum þar í landi.
Fjölmargar stórstjörnur hafa birt myndir á Instagram með kassamerkinu og nú hafa Íslendingar einnig tekið upp á því að styðja málstaðinn eins og sjá má hér að neðan.
Á bak við átakið Blackout Tuesday standa Jamila Thomas og Brianna Agyemang, en þær hvöttu fólk í tónlistarbransanum til að breyta forsíðumyndum á samfélagsmiðlum í svarta kassa og setja upprunalega kassamerkið við, #TheShowMustBePaused.
Átakið tók því á sig nýja mynd þegar fólk hóf að birta svartar myndir í hrönnum í stað þess að hafa hljótt og breyta forsíðumyndum. Mótmælendur hafa margir lýst yfir áhyggjum af því að myndirnar svörtu drekki mikilvægum upplýsingum sem finna megi undir kassamerkinu #blacklivesmatter.
Uppfært: Upphafskonur átaksins birtu núna síðdegis tilkynningu til að benda fólki á að markmiðið hafi verið að taka sér pásu frá hefðbundnum birtingum á samfélagsmiðlum, en ekki að „þagga niður í sjálfum okkur.“ Benda þær fólki vinsamlega á að nota ekki #blacklivesmatter með færslum sínum.
Hér að neðan má sjá birtingu ýmissa aðila á svörtu myndunum.