Gul veðurviðvörun er í gildi á Austfjörðum og Suðausturlandi. Búast má við norðvestan hvassviðri, 15-20 metrum á sekúndu. Eins má búast við sérstaklega snörpum vindhviðum, einkum staðbundið við fjöll, yfir 25 metrum á sekúndu. Viðvörunin er í gildi til klukkan 20 í kvöld.
Þá eru ökumenn bæði á Austfjörðum og Suðausturlandi hvattir til að sýna varúð og fylgjast með aðstæðum. Sérstaklega getur veðrið reynst hættulegt þeim ökumönnum sem eru með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Búast má við áframhaldandi kuldatíð hér á landi með stífri norðanátt, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar. Slydduél verða um landið norðaustanvert.
Léttskýjað að mestu sunnan- og vestantil, og hiti allt að 12 stigum. Það dregur svo úr vini og éljum í kvöld og nótt.
Hér má sjá veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands:
Á laugardag:
Norðlæg og síðar vestlæg átt 5-10 m/s. Bjartviðri sunnan- og vestanlands, en skýjað norðaustantil á landinu fram á kvöld. Hiti 1 til 12 stig, hlýjast sunnanlands.
Á sunnudag (sjómannadagurinn):
Hægt vaxandi suðlæg átt. Bjart með köflum norðaustantil, en þykknar upp með rigningu sunnan- og vestanlands. Hiti 7 til 14 stig.
Á mánudag:
Suðlæg átt 8-15 og rigning, en þurrt norðaustantil fram yfir hádegi. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast norðaustantil.
Á þriðjudag:
Breytileg átt og rigning með köflum eða skúrir og milt í veðri.
Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir suðlæga átt með rigningu sunnan- og vestanlands, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti breytist lítið.