Bikarmeistarar Víkings R. hafa verið ósannfærandi í upphafi móts og komust með naumindum áfram úr 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins þegar þeir lögðu nafna sína úr Ólafsvík að velli eftir vítaspyrnukeppni.
Ólafsvíkingar leiddu leikinn 1-0 allt þar til á lokamínútu venjulegs leiktíma þegar Helgi Guðjónsson jafnaði fyrir ReykjavíkurVíkinga.
Víkingur R. gerði 1-1 jafntefli við nýliða Fjölnis í 1.umferð Pepsi-Max deildarinnar. Í kjölfarið fóru þeir norður til Akureyrar og gerðu markalaust jafntefli við KA í 2.umferð. Frammistaða Víkinga var til umræðu í Mjólkurbikarmörkunum á Stöð 2 Sport í gær þar sem þeir Hjörvar Hafliðason og Máni Pétursson fóru yfir málin með Henry Birgi.
„Vandamálið þeirra er að skora mörk. Þeir eru í vandræðum með það og þeir þurfa kantmann. Þeir sköpuðu sér lítið í leiknum á Akureyri og líka á móti Fjölni,“ sagði Hjörvar.
„Hver á að skora þarna annar en Óttar (Magnús Karlsson)? Ef þú vilt fá mörk frá Nikolaj Hansen þá verður hann að vera inn á vellinum.“
Umræðuna um Víking má sjá í heild sinni í spilaranum neðst í fréttinni.