Faraldur kórónuveiru hefur tekið sig upp að nýju af fullum þunga í Flórída en þar greindust 15.299 með veiruna síðasta sólarhringinn og 45 létust. Flórída sló þar með met Kaliforníu en fleiri tilfelli hafa ekki greinst á einum sólarhring í nokkru ríki Bandaríkjanna
Blómlegur ferðamannaiðnaður og hár meðalaldur íbúa gerir Flórídaríki berskjaldað fyrir útbreiðslu veirunnar. Í frétt BBC segir að yfir 40 sjúkrahús í Flórída séu yfirfull af covid-sjúklingum og geti ekki tekið við fleirum.
Aldrei greindust nærri því jafnmargir með veiruna á einum sólarhring í New York þegar ástandið var hvað verst þar í apríl og síðasta sólarhringinn í Flórída. Þá hefur slíkur fjöldi ekki greinst með veiruna á einum degi í neinu Evrópuríki hingað til. Væri Flórída sjálfstætt ríki væri það nú í fjórða sæti á heimsvísu yfir flest smit síðasta sólarhringinn.
Yfirvöld í Flórída tóku að slaka á veirutakmörkunum í ríkinu strax í maí. Nú síðast í gær opnaði skemmtigarðurinn Walt Disney World í Orlando á ný eftir að hafa verið lokað vegna faraldursins í vor.