Þann 30.júní síðastliðinn var Einar Hermannsson kosinn nýr formaður SÁÁ. Samtökin höfðu þá verið nokkuð í umfjöllun fjölmiðla vegna ólgu innanbúðarfólks og þótti kosningabaráttan draga keim af því. Einar segir þó allt með kyrrum kjörum núna og hann og samstarfsfólkið í góðum gír. Einar vaknar á þeim tíma sem baðherbergið er laust á morgnana og veltir fyrir sér hvort hann þurfi að fara að skipuleggja eitthvað í kringum óskipulagið hjá sér.
Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Vakna hálf átta á slaginu, þá er baðherbergið laust og mitt.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Það allra fyrsta og áður en að ég er hæfur til að gera nokkuð annað, fæ ég mér einn tvöfaldan expressó. Þá er Kappi, sex mánaða labrador við dyrnar að bíða eftir sínum göngutúr.“

Er allt fallið í dúnalogn hjá SÁÁ eða megum við eiga von á fleiri fréttum af starfsmannamálum eða deilum næsta haust og vetur?
„Það eru margir í frí enda Vík og Von lokað vegna sumarleyfa, það fáa samstarfsfólk sem er hér með mér er bara í góðum gír.
Ég á ekki von á fleirum leiðinlegum fréttum enda fullt að jákvæðum verkefnum í vinnslu.“
Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Þau eru mörg. Koma virku og fjölbreyttu félagsstarfi á stað í haust, lestur á þeim samningum sem við erum með við hið opinbera og bara að koma mér inn í jobið.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Því miður ef ég ekki verið þekktur fyrir skipulag, spurning að skipuleggja það aðeins.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Of seint! Netflix er harður húsbóndi, reyni samt að fara ekki seinna en hálf eitt.“