Valur komst á topp Pepsi Max deildarinnar í gær með 3-1 sigri á Fjölni. Mörk leiksins sem og öll mörk 9. umferðar má finna hér að neðan en alls voru 22 mörk skoruð í umferðinni. Þá var einn leikur markalaus en KA og KR gerðu 0-0 jafntefli þar sem heimamenn í KA brenndu af víti.
Valur tyllti sér á toppinn þökk sé mörkum Lasse Petry, Sigurðs Egils Lárussonar og sjálfsmarks Peter Zachan. Jóhann Árni Gunnarsson skoraði mark Fjölnis.
Breiðablik vann ÍA í stórskemmtilegum leik á Kópavogsvelli. Lokatölur 5-3 Breiðablik í vil. Alexander Helgi Sigurðarson, Thomas Mikkelsen og Kristinn Steindórsson komu Blikum í 4-0 í fyrri hálfleik en sá síðastnefndi skoraði tvívegis. Tryggvi Hrafn Haraldsson svaraði með marki úr vítaspyrnu áður en fyrri hálfleikur var úti og Hlynur Sævar Jónsson minnkaði muninn í 4-2 í upphafi þess síðari.
Thomas Mikkelsen bætti við marki úr víti en Viktor Jónsson minnkaði muninn skömmu síðar og þar við sat.
Fylkir vann 3-2 sigur á HK í Lautinni en leikurinn var frábær skemmtun. Djair Terraii Carl Parfitt-Williams kom heimamönnum yfir áður en Valgeir Valgeirsson svaraði með tveimur mörkum fyrir gestina.
Í síðari hálfleik skoruðu Arnór Gauti Ragnarsson og Valdimar Þór Ingimundarsson fyrir heimamenn og tryggðu þeim stigin þrjú.
FH rétt marði nýliða Gróttu í Kaplakrika með tveimur mörkum gegn einu. Þórir Jóhann Helgason kom FH yfir í upphafi leiks og þannig var staðan í hálfleik. Daði Freyr Arnarsson - markvörður FH - varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 61. mínútu en Steven Lennon tryggði FH sigurinn með marki aðeins fjórum mínútum síðar.
Bikarmeistarar Víkings náðu jafntefli gegn Stjörnunni í Garðabænum. Lokatölur 1-1 í leik þar sem Hilmar Árni Halldórsson kom Stjörnunni yfir en Óttar Magnús Karlsson jafnaði metin fyrir Víkinga með marki úr vítaspyrnu.