Nærri sjö milljón börn undir fimm ára aldri bætast í hóp barna sem eru vannærð á þessu ári og má að stórum hluta rekja það til kórónuveirufaraldursins. Áður en faraldurinn braust út voru 47 milljón börn á þessum aldri talin vannærð.
Afleiðingar faraldursins eru einna verstar í Suður-Ameríku, Suður-Asíu og sunnan Sahara eyðimerkurinnar í Afríku. Samkvæmt rannsókn sem birt var í læknatímaritinu The Lancet munu afleiðingar faraldursins leiða til þess að 128 þúsund ung börn munu deyja á fyrstu 12 mánuðum faraldursins.

Í apríl á þessu ári varaði yfirmaður Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna við því að efnahagsleg áhrif faraldursins myndu leiða til alvarlegrar hungursneyðar víða um heim. Hungursneyð er lýst yfir þegar 30% íbúa eru vannærðir – það er þegar vannæringin er slík að vöðvar og líkamsfita rýrnar.
Slík vannæring hefur verið tengd við alvarlega og viðvarandi sjúkróma síðar á lífsleiðinni og hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að hún geti haft langvarandi áhrif á þroska og andlega heilsu.