Landsliðskonurnar Glódís Perla Viggósdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir og Guðrún Arnardóttir voru allar eldlínunni í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Þá kom landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir inn af varamannabekk Lyon í sínum fyrsta mótsleik er liðið komst naumlega áfram í franska bikarnum.
Glódís Perla var óvænt í stöðu hægri bakvarðar er Rosengård lagði Piteå 2-1 á heimavelli í dag. Rosengård var komið í 2-0 eftir aðeins 20 mínútur en gestirnir bitu frá sér í síðari hálfleik. Þær minnkuðu muninn á 58. mínútu en nær komust leikmenn Piteå ekki.
Lokatölur eins og áður sagði 2-1 og Rosengård þar með komið á toppinn með 19 stig, tveimur meira en Göteborg sem á þó leik til góða.
Svava Rós Guðmundsdóttir lék allan leikinn er Kristianstad gerði 1-1 jafntefli við Umeå. Jafntefli einkar svekkjandi niðurstaða þar sem Umeå jafnaði undir lok venjulegs leiktíma. Þá var Guðrún Arnardóttir í byrjunarliði Djurgården sem tapaði 1-0 á útivelli gegn Växjö.
Kristianstad er í 4. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan Djurgården er í 8. sæti með átta stig.
Að lokum tryggði Nikita Parris franska stórliðinu Lyon 1-0 sigur á Guingamp í undanúrslitum franska bikarsins. Sara Björk spilaði síðustu 20 mínúturnar í leiknum.