Allar björgunarsveitir á Austfjörðum voru kallaðar út um klukkan fimm síðdegis vegna göngumanns sem er í sjálfheldu við fjallið Hólmatind í Eskifirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
Þá hefur verið óskað eftir því að þyrlu Landhelgisgæslunnar verði flogið á vettvang. Þetta staðfestir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við Vísi og segir að undanfarar frá Landsbjörg fari með þyrlunni austur.
Búið er að finna manninn en erfitt er að komast að honum þar sem hann er staddur. Yfir 30 manns taka þátt í björgunaraðgerðunum, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg.