Facebook-síðan Live Darts Iceland birti í gærkvöldi myndband sem er klippt út úr beinu streymi síðunnar og sýnir þegar jarðskjálfti af stærðinni 4,3 skók Grindavík stuttlega í gær. Í myndbandinu sjást þeir Orri Freyr Hjaltalín, Björn Steinar Brynjólfsson og Bogi Rafn Einarsson.
Eins og nafnið gefur til kynna streymir síðan pílukastkeppnum, en í streymi gærkvöldsins tók allt að hristast og skjálfa. Það var sökum jarðskjálfta sem gekk yfir í gærkvöldi, en miklar jarðhræringar hafa verið í grennd við Grindavík upp á síðkastið.
Í myndbandinu má einnig heyra píluspilarana ræða skjálftann rétt eftir að hann reið yfir.
„Það var pínu power (kraftur) í þessu,“ heyrist í einum þeirra.
Annar svarar: „Þetta var allavega þrír og hálfur,“ og á þar við stærð skjálftans. Það var ekki rangt, en eins og áður sagði mældist skjálftinn 4,3 að stærð.
Myndbandið má sjá hér að neðan.