Brasilíski miðvörðurinn Thiago Silva er genginn í raðir Chelsea. Hann kemur til liðsins á frjálsri sölu frá Paris Saint-Germain. Silva, sem er 35 ára, skrifaði undir eins árs samning við Chelsea með möguleika á árs framlengingu.
Paris The Pride of London! @TSilva3 has arrived! #OhhThiagoSilva pic.twitter.com/ssO5ZlA4Dw
— Chelsea FC (@ChelseaFC) August 28, 2020
Silva er þriðji varnarmaðurinn sem Chelsea fær á síðustu þremur dögum. Í fyrradag keypti liðið Ben Chilwell frá Leicester City og í gær kom Malang Sarr á frjálsri sölu frá Nice.
Silva lék með PSG í átta ár og varð sjö sinnum franskur meistari með liðinu. Síðasti leikur Brasilíumannsins með PSG var úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu gegn Bayern München á sunnudaginn. Bayern vann leikinn, 1-0. Silva var lengi fyrirliði PSG.
Chelsea hefur látið til sín taka á félagaskiptamarkaðnum en auk Silvas, Chilwells og Sarrs hefur liðið fengið Timo Werner frá RB Leipzig og Hakim Zieych frá Ajax. Þá þykir líklegt að Chelsea kaupi Kai Havertz frá Bayer Leverkusen.
Áður en Silva fór til PSG lék hann með AC Milan í þrjú ár. Hann varð ítalskur meistari með liðinu 2011.
Silva hefur leikið 89 leiki fyrir brasilíska landsliðið og skorað sjö mörk. Hann varð Suður-Ameríkumeistari með Brasilíu í fyrra.
Á síðasta tímabili endaði Chelsea í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og komst í úrslit ensku bikarkeppninnar þar sem liðið tapaði fyrir Arsenal, 2-1.