Tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti hefur selt hlut sinn í Hagavagninum við Hofsvallagötu. Gauti var á meðal þeirra sem kom að opnun staðarins ásamt hjónunum Rakel Þórhallsdóttur og Jóhanni Guðlaugssyni.
Hagavagninn opnaði í nóvember árið 2018 og var gamli Hagavagninn rifinn og nýr byggður í staðinn. Þar hafa íbúar Vesturbæjarins getað sótt sér klassíska hamborgara og hefur staðurinn sett svip sinn á hverfið.
„Fyrir nokkrum dögum seldi ég minn hlut í staðnum en eftir stendur þakklæti fyrir að hafa tekið þátt í að skapa stað sem ég tel vera góða viðbót við hverfið og veitingaflóruna í heild sinni,“ skrifar Gauti á Facebook.
Hann snýr sér nú að öðrum verkefnum að eigin sögn. Hann kemur nú að fyrirtæki sem sérhæfir sig í innflutningi og sölu á CBD vörum, hefur nýlega byrjað með hlaðvarp ásamt tónlistarmanninum Arnari Frey Frostasyni og mun halda tónlistarsköpun sinni áfram.
„Mæli með tvöföldum númer eitt með extra pickles,“ skrifar Gauti að lokum.