Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var mjög ósáttur með varnarleik sinna manna í 4-2 tapi liðsins gegn KR í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld. Var þetta fjórða tap Blika gegn KR í röð.
„Ég held að það sé alveg ljóst að varnarleikur okkur á síðasta þriðjung var óboðlegur. Á móti liði eins og KR þá færðu það í andlitið,“ sagði Óskar Hrafn um það sem hefði farið úrskeiðis hjá Blikum í kvöld.
„Mér fannst við – eins kjánalega og það hljómar – með góða stjórn á leiknum í fyrri hálfleik. Það vantaði aðeins upp á síðasta þriðjung og við markið þeirra en mér fannst við með fína stjórn á leiknum og það var ekki fyrr en þetta var orðið ´ping pong´ í síðari hálfleik sem var þörf á að skipta. Skiptingarnar sem slíkar löguðu ekki varnarleikinn. Þær löguðu ekki einstaklings varnarleikinn og gegn svona liðum er hann mikilvægur. Ef þú dekkar ekki í hornum þá refsar KR þér. Ef þú ert lélegur einn á móti einum þá refsar KR þér. Það var svona það sem fór með leikinn í kvöld fannst mér,“ sagði Óskar um leik kvöldsins.
„Ég efast um það. Við höfum engan tíma til að dvelja sérstaklega við þennan leik eða hvort KR hafi tak á okkur. Við spilum við FH á sunnudaginn og svo kemur KR hingað aftur á sunnudeginum eftir það. Þurfum að mæta í þann leik vopnaðir því sem við gerðum vel og laga það sem fór miður sem var varnarleikurinn. Þá held ég að við séum í ágætis málum,“ sagði Óskar að lokum aðspurður út í hvort fjórir sigrar KR í röð á Blikum væri farið að setjast í mannskapinn.