Al Arabi, sem Heimir Hallgrímsson stýrir, vann dramatískan sigur á Umm Salal í katörsku úrvalsdeildinni í dag, 2-1. Íraninn Mehrdad Mohammadi skoraði sigurmark Al Arabi þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.
Þetta var fyrsti sigur Al Arabi í deildinni en liðið fékk aðeins eitt stig í fyrstu þremur umferðunum.
Aron Einar Gunnarsson var í byrjunarliði Al Arabi og lék allan leikinn. Al Arabi náði forystunni í uppbótartíma fyrri hálfleiks með marki frá Abdulaziz Al Ansari.
Á 68. mínútu fékk Umm Salal vítaspyrnu sem Abdennour Belhocini skoraði úr og jafnaði í 1-1. Flest benti til þess að það yrðu úrslit leiksins en Mohammadi var á öðru máli og skoraði sigurmark Al Arabi á lokaandartökunum.
Með sigrinum fór Al Arabi upp um fjögur sæti, úr því ellefta og í það sjöunda. Næsti leikur liðsins er gegn Al Wakrah á laugardaginn.