Fraport Skyliners Frankfurt tapaði með 23 stiga mun fyrir Bayern München í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag. Jón Axel Guðmundsson var stigahæstur hjá Frankfurt.
Heimamenn stóðu fyrir sínu í fyrri hálfleik og voru nokkuð óvænt sex stigum yfir í hálfleik, staðan þá 34-28. Í þeim síðari fór svo allt í baklás, á meðan hverri körfunni rigndi niður á fætur annarri hjá gestunum þá gátu heimamenn í Frankfurt varla skorað til að bjarga lífi sínu.
Skoruðu þeir til að mynda aðeins sex stig í síðasta fjórðung leiksins. Fór það svo að Bayern vann stórsigur í dag, lokatölur 52-75.
Jón Axel skoraði 11 stig í leiknum og tók þrjú fráköst.
Frankfurt hefur nú tapað báðum deildarleikjum sínum á meðan Bayern hefur unnið báða sína.