Oddur J. Jónasson, þýðandi hjá Stöð 2, hefur brotið upp á heimavinnuna nú í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins en hann hefur klæðst búningum frá því að hann hóf heimavinnu að nýju. Nú hefur hann sett saman meira en sextíu búninga og fara þeir úr því að vera kennari yfir í víking, M&M nammi og sovéskan leynilögreglumann.
Oddur er mikill stemningsmaður, elskar Eurovision og Game of Thrones sem hann sér alltaf fyrstur Íslendinga enda þýðir hann þættina. Oddur hefur undanfarna mánuði skemmt samstarfsfélögum sínum með því að mæta í litríkum búningum í vinnuna og á alla fjarfundi, sem hefur skemmt samstarfsfólkinu vel. Oddur var heimsóttur í Íslandi í dag í kvöld og sýndi hann þar alla búningana.
„Það hefur bara gengið mjög vel, við höfum þurft að breyta borðstofuborðinu í tveggja manna skrifstofu og það hefur allt bara rúllað þokkalega. Í fyrstu bylgjunni núna í vor fannst okkur þetta vera orðið hálfleiðinlegt og ég hóaði í liðið mitt og ætlaði að setja upp smá dagskrá, hvort við ættum ekki að hafa ljótupeysudaga, sólgleraugnadaga, hattadaga og þess háttar. Svo vatt þetta hægt og rólega upp á sig,“ segir Oddur.
Hann segir að fleiri samstarfsfélagar hans taki þátt í búningagleðinni en hafi kannski ekki allir farið „all-in“ eins og hann.
„Ég setti mér reglur, ég ætlaði ekki að kaupa mér neitt, fór í gegn um fataskápana og raðaði saman og það hefur bara gengið vel hingað til,“ segir Oddur.
Hann segir að búningarnir séu hátt í sextíu núna. Uppáhaldsbúningurinn hafi verið „herramanns-búningur,“ þar sem hann var í jakkafötum, með kúluhatt og drakk te úr fínum postulínsbolla.
Hann segist halda mikið upp á Eurovision, og fólk í hverfinu öllu vant, en ár hvert eru hengdir upp fánar í gluggana á heimili Odds. Það eru, þjóðfánar þeirra ríkja sem taka þátt í Eurovision, svo það má með sanni segja að Oddur sé stemningsmaður.
Hann segir að þegar fregnir hafi borist þess efnis í vor að Eurovision yrði ekki haldið í ár hafi verið haldin erfidrykkja á heimilinu, heimilsmenn klæddir í svart og sorgarörlögin syrgð.