Rúnar fór fyrir sínum mönnum í Ribe-Esbjerg er liðið vann Álaborg með tveggja marka mun á útivelli í dag, lokatölur 31-29. Gunnar Steinn Jónsson átti einnig góðan leik í liði Ribe-Esbjerg. Þá varði Viktor Gísli vel í sex marka sigri GOG á Árhús. Lokatölur þar 31-25.
Leikur Álaborgar og Ribe-Esbjerg var mjög jafn en gestirnir leiddu með einu marki í hálfleik, staðan þá 14-15. Í þeim síðari tókst gestunum að halda forystunni og unnu leikinn með tveggja marka mun, 29-31 lokatölur.
Rúnar Kárason var magnaður í liði Ribe-Esbjerg en hann gerði alls níu mörk í leiknum og var markahæstur í sínu liði. Nicolai Nygaard kom þar á eftir með sjö mörk. Gunnar Steinn Jónsson gerði þrjú mörk en Daníel Ingason komst ekki á blað.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Álaborgar en liðið tapaði toppsætinu með tapi dagsins. Ribe-Esbjerg er nú aðeins þremur stigum frá öruggu sæti þegar 16 umferðir eru búnar en liðið er sem stendur í 12. sæti sem þýðir að það færi í umspil um hvaða lið falla niður um deild.
Viktor Gísli og félagar í GOG eru komnir í toppsæti deildarinnar eftir sex marka sigur á Árhús. GOG var einnig einu marki yfir í hálfleik, 15-14, en tók yfir leikinn í síðari hálfleik og unnu leikinn með sex marka mun. Lokatölur leiksins 31-25 og GOG tyllir sér í toppsæti deildarinnar.
Viktor Gísli varði ellefu skot í leiknum sem gerir alls 31 prósent markvörslu.
GOG er nú með 26 stig í toppsæti deildarinnar, stigi meira en Álaborg. Viktor Gísli og félagar eiga einnig tvo leiki til góða sem stendur.