Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson, sem er búinn að vinna sér sæti i aðalliði IFK Norrköping, er í efsta sætinu á lista yfir efnilegustu leikmenn sænsku úrvalsdeildarinnar hjá sænska blaðinu Aftonbladet.
Leikmenn sem komu til greina í vali Aftonbladet eru leikmenn sem eru fæddir 2001, 2002 og 2003 eða leikmenn sem eru á bilinu sautján til nítján ára. Fótbolti.net segir frá því að Aftonbladet hafi sett íslenska unglingalandsliðsmanninn í fyrsta sætið.
Ísak Bergmann talinn efnilegasti leikmaðurinn í Svíþjóð https://t.co/qU5iq7gLXh
— Fótbolti.net (@Fotboltinet) March 19, 2020
Ísak Bergmann Jóhannesson er fæddur 23. mars 2003 og verður því ekki sautján ára fyrr en í byrjun næstu viku.
Ísak Bergmann Jóhannesson kom til Svíþjóðar frá ÍA en hann er sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar, þjálfara Pepsi Max deildar liðs ÍA.
Ísak kom til Norrköping í fyrrasumar og fékk þá sínar fyrstu mínútur en á komandi tímabili er búist við því að hann vinni sér sæti í byrjunarliði liðsins.
Ísak Bergmann skoraði meðal annars í sigri Norrköping á Breiðabliki í æfingarleik á dögunum en Blikarnir fóru þá í æfingaferð til Svíþjóðar.
„Efnilegasti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni síðan Kim Kallström kom fram á sjónarsviðið," segir meðal annars í umsögn Aftonbladet.
Ísak Bergmann Jóhannesson valdi það að fara til liðs þar sem hann gæti fengið fljótt ábyrgðarhlutverki hjá meistaraflokksliði í stað þess að fara í stærra félag þar sem hann yrði að sætta sig við að spila lengur með unglingaliði.