„Mér finnst rosa erfitt stundum þegar mér finnst ég bara vera alein eitthvað að brasa í Teams, bara svona "halló.... hallóóóóo... er einhver þarna? ... getur einhver svarað mér?" segir Þóranna K. Jónsdóttir markaðsstjóri hjá SVÞ.
Þóranna er ein þeirra sem fór í sóttkví eftir skíðaferð fyrr í mánuðinum. Þegar hún losnaði úr þeirri prísund, voru samstarfsfélagarnir komnir í sóttkví vegna smits sem greindist innan starfshópsins. Þóranna er því áfram í fjarvinnu og viðurkennir að þótt henni finnist fjarvinnan fín, þá sakni hún samstarfsfélaganna. Því lengra sem líður, því meira fer félagshlutinn að segja til sín.
„Fjarvinna er ágæt í sjálfu sér og tækni er almennt ekkert vandamál fyrir mig svo að það er ekkert yfir neinu að kvarta þar en félagslegi hlutinn skiptir bara svo miklu máli,“ segir Þóranna.
Þóranna býr á Suðurnesjum og er vön að keyra í bæinn til vinnu. Hún er líka vön fjarvinnu því áður en hún hóf störf hjá SVÞ var hún sjálfstætt starfandi.
„En maður braut þó upp daginn þar með því að fara að hitta kúnna, fara á fundi, kenna, sækja viðburði og annað þannig að svona algjör 100% fjarvinna alla daga í þetta langan tíma án þess að hitta nokkurn mann í persónu nema nánustu fjölskyldu, var alveg ný fyrir mér,“ segir Þóranna.
Var heppin að vera heima í sóttkví
Þóranna segist þakklát fyrir það að hafa verið heima í sóttkví með allri fjölskyldunni, því þau höfðu verið saman á skíðum.
„Ég veit ekki hvort ég myndi höndla til dæmis að vera eins og vinnufélagar mínir eru akkúrat núna.
Ein skiptir húsinu á milli sín og makans, annar er á hótelherbergi aleinn og sá þriðji einn í íbúð,“
segir Þóranna og viðurkennir að fyrir mikla félagsveru eins og hana sjálfa, er tilhugsunin um slíka einangrun erfið ein og sér.
Vinnustaðurinn í fjarvinnu og sóttkví
Þóranna var frelsinu fegin þegar sóttkví lauk.
„Ég var farin að hlakka mikið til að fara á skrifstofuna á mánudegi en rétt fyrir helgina bárust þá fréttir að einn starfsmaður okkar væri með veiruna.
Hún fór samviskusamlega í skimun hjá Decode, án þess að það væri nein sérstök þörf á, og þetta kom á daginn.
Svo það voru allir sendir í sóttkví og það var svo sem ekki ástæða fyrir mig að æða á skrifstofuna til að sitja við tölvuna þar í fjarvinnu, ég gat þá alveg eins unnið fjarvinnu hér að heiman áfram,“ segir Þóranna.
„Í ofanálag þá var fjölskylda bróður míns sett í sóttkví um það leyti sem við komum úr sóttkví, og foreldrar mínir í sjálfskipaðri sóttkví, tengdaforeldrar mínir komnir á aldur og því viljum við ekki taka neina áhættu þar þannig að þrátt fyrir að það væri frábært að losna úr sóttkví þá var það samt ljúfsárt, því að það var enginn af manns nánustu til að fara og hitta og vera með,“ bætir Þóranna við.
„Mótiveringin tekur alveg dýfu“
Þóranna segist hafa áttað sig á því að því lengur sem fjarvinnan stendur yfir án hefðbundinna samskipta, því meira þarf hún að hafa fyrir því að peppa sjálfan sig upp.
Ég er almennt mjög drífandi og kraftmikil en það hafa alveg komið dagar upp á síðkastið þar sem ég hef fundið að þessi innri hvöt, mótiveríngin, tekur alveg dýfu,“
segir Þóranna.
Að hennar sögn er enn nokkuð í að samstarfshópurinn hittist á vinnustaðnum.
„Ég verð að viðurkenna að ég hlakka mikið til.
Það er líka að venjulega ef maður fær ekki svör í gegnum tölvupóst eða skilaboð eftir svolítinn tíma, á röltir maður bara og finnur viðkomandi.
En þetta kennir manni svo sem líka ýmislegt. Ég hef til dæmis aldrei verið þolinmóð að eðlisfari og þetta hefur verið ákveðin æfing í því.
„Maður gerir sér betur grein fyrir því núna hvað snerting og nálægð skiptir miklu máli“ segir Þóranna að lokum.
Þóranna var frelsinu fegin þegar sóttkvínni lauk og segist hafa gert sér glaðan dag. Sá fólst reyndar ekki í neinu merkilegra en því að fara út í búð og apótek. Í fyrsta sinn frá því að sóttkví hófst, setti hún meira að segja upp eyrnarlokka!