Til stendur að vinna hráefni úr jarðhitavatni sem fellur til við orkuvinnslu á starfssvæði Landsvirkjunnar við Mývatn. Fyrirtækið MýSilica hefur í hyggju að nýta hráefnið til að framleiða húðvörur.
Landsvirkjun og MýSilica hafa undirritað samning þess efnis. Hann er sagður taka til rannsókna, þróunar og framleiðslu á umræddum húð- og snyrtivörum. Til stendur að byggja upp aðstöðu sem ætlað er að nýtist „fyrir nýsköpun og fjölnýtingu“ og verður MýSilica fyrsta sprotafyrirtækið til að nýta aðstöðuna.
Landsvirkjun greinir sjálf frá þessum samningi og segir markmið hans að „auka verðmætasköpun úr þeim efnum sem verða til við orkuvinnslu Landsvirkjunar og hafa hingað til ekki verið nýtt sérstaklega.“
Fyrirtækið MýSilica er sagt sérhæfa sig í þróun, framleiðslu og markaðsetningu á húðvörum. Haft er eftir stofnanda fyrirtækisins, Fida Abu Libdeh, að verkefnið hafi verið í þróun í nokkur ár og að þau fagni þessum áfanga.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segist að sama skapi spenntur fyrir þessari starfsemi. „Við sjáum mikil tækifæri í frekari nýtingu þeirra strauma sem falla til í starfsemi okkar. Nýsköpunarstarfsemi á borð við þetta spennandi verkefni MýSilica getur orðið mikilvægur þáttur í hringrásarhagkerfinu og stuðlað að aukinni sjálfbærri þróun og bættri nýtingu auðlindarinnar.“