Vignir Svavarsson tilkynnti í gær að hann hafi ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hann sér sig ekki fara út í þjálfun eða eitthvað tengt handboltanum því hann hafi ekkert sérstaklega gaman af íþróttinni.
Vignir staðfesti í gær að hann væri hættur eftir langan og farsælan feril bæði hér heima, í atvinnumennsku sem og með landsliðinu. Hann var til viðtals í Sportinu í dag.
„Það finnst mér mjög ólíklegt,“ svaraði Vignir þegar hann var spurður út í það hvort að handboltaunnendur myndu sjá Vigni nálægt handboltanum á næstu árum.
„Ég hef ekkert sérstaklega gaman af handbolta. Mér finnst gaman en ligg ekki yfir þessu. Eftir að ég hætti með landsliðinu er rosa fínt að taka stórmótin á sófanum og jafnvel horfa á eitthvað allt annað en handbolta.“
Aron Kristjánsson tekur við Haukum í sumar og segir Vignir að hann gæti komið í eitt hlutverk.
„Maður á aldrei að segja aldrei en ég er ekkert að fara í einhverja þjálfun eins og staðan er í dag. Ef að það gengur illa hjá Haukunum og Aroni vantar einhvern til að rífa kjaft þá get ég komið og rifið kjaft en það er ekki mikið meira.“
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.