Enn er leikið í úrvalsdeildinni í Hvíta-Rússlandi og Willum Þór Willumsson lék allan leikinn í öruggum 3-1 sigri BATE Borisov á Neman Grodno í dag.
Það virðist ekkert koma í veg fyrir að knattspyrnan í Hvíta-Rússlandi gangi sinn vanagang. Ekki einu sinni alheimsfaraldur á borð við kórónufaraldurinn. Í dag fóru alls fram sjö leikir efstu tveimur deildunum.
Willum Þór Willumsson var á sínum stað í byrjunarliði BATE Borisov sem fékk Nerman Grodno í heimsókn. Lék hann allan leikinn í nokkuð öruggum sigri BATE.
Heimamenn komust í 2-0 eftir aðeins sautján mínútna leik með mörkum frá Bojan Dubajic og Igor Stasevich. Gestirnir minnkuðu muninn þegar rúmur hálftími var liðinn en Pavel Nekhajchik skoraði þriðja mark BATE á 70. mínútu og tryggði sigurinn.
Willum Þór og félagar hafa nú unnið þrjá leiki í röð og aðeins tapað einum af síðustu sjö í öllum keppnum. Liðið er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar með þrettán stig, þremur stigum á eftir toppliði Slutsk og aðeins stigi á eftir Torpedo sem situr í öðru sætinu.