Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Þar segir að boðið verði upp á flugferðir milli Keflavíkurflugvallar og Manchester-flugvallar á mánudögum og fimmtudögum frá apríl til október á næsta ári.
„Hægt verður að kaupa stakt flugfar með Jet2.com eða pakkaferð til Íslands með Jet2City Break. Þannig er veitt svar við eftirspurn Breta eftir ferðum til Íslands en einnig fá Íslendingar aðgengi að Manchester-borg og Norðvestur-Englandi. Jet2.com og Jet2City Break hófu flug til Íslands árið 2019,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Grétari Má Garðarssyni, forstöðumanni flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia, að þau á Keflavíkurflugvelli séu einkar ánægð með að góðir samstarfsaðilar þeirra hjá Jet2.com hafi ákveðið að framlengja vetraráætlun sína inn í sumarið.
„Tilkynning um nýja flugleið frá Manchester til Íslands sumarið 2022 á þessum óvissutímum eykur trú okkar á að ferðaþjónustan muni vaxa á ný og sýnir einnig að Jet2.com hefur trú á markaðnum á Íslandi,“ segir Grétar Már.