Á rafrænum fjárfestafundi í morgun kynnti forstjóri Icelandair 51 milljarðs króna taprekstur á nýliðnu ári en kvaðst jafnframt bjartsýnn um að bólusetningar leiði til þess að ferðatakmörkunum verði aflétt jafnt og þétt. Í fréttum Stöðvar 2 segir hann þó enn langt í að fyrri stöðu fyrirtækisins verði náð.

„Við gerðum ráð fyrir því að þetta ár, 2021, yrði svona 1/3 tæplega af því sem við sáum fyrir covid. Og við erum svona ennþá að vinna með það, að við verðum í svona þrjátíu prósent framleiðslu af 2019, á þessu ári í heild. Og við verðum komin í sömu stöðu 2024 og við vorum fyrir covid.
Það er svona grunnmyndin sem við erum að horfa til. En síðan er þetta að sjálfsögðu allt breytingum háð,“ segir Bogi Nils.
Fyrstu merki um bata sjást nú með því að byrjað er að auglýsa eftir flugmönnum og von á endurkomu Max-vélanna. Samanburður á starfsmannafjölda frá árslokum 2019 til ársloka 2020 lýsir þó vel högginu. Fjöldinn fór úr nærri 4.300 manns niður í um 1.500 og fækkaði um 2.700 manns.

Icelandair er langstærsta fyrirtæki í ferðaþjónustu hérlendis og því spyrja margir: Hvenær verður farið að endurráða fólk? Hve margir munu fá vinnu í sumar?
„Óvissan er mjög mikil ennþá en við erum bjartsýn á að þetta fari í gang í sumar. Og ef það gerist þá munum við ráða til baka. Og við vonumst að sjálfsögðu til þess að það verði sem flestir. Af okkar frábæra fólki sem við því miður þurftum að segja upp á síðasta ári.
En óvissan er klárlega mjög mikil ennþá. Þannig að þetta liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: