Osimhen var fluttur beint á sjúkrahús eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg í leik Atalanta og Napoli í ítalska fótboltanum á sunnudaginn.
Osimhen var útskrifaður af sjúkrahúsinu í gær en hafði þá eytt sólarhring á sjúkrahúsi í Bergamo.
Atalanta vann leikinn 4-2 en undir lok hans þá lentu þeir Victor Osimhen og Cristian Romero í óhugnanlegu samstuði. Osimhen lá eftir og var á endanum borinn af velli og síðan keyrður beint upp á sjúkrahús.
Napoli star Victor Osimhen to remain in hospital after being knocked UNCONSCIOUS during defeat to Atalanta https://t.co/4ImhaBxglT
— MailOnline Sport (@MailSport) February 22, 2021
Victor Osimhen er 22 ára gamall og landsliðsmaður Nígeríu. Hann hefur skorað 2 mörk í 10 leikjum í ítölsku deildinni á leiktíðinni.
ESPN hafði það eftir manni nákomnum Osimhen að leikmaðurinn hafi verið í sjokki þegar hann horfði aftur á atvikið.
„Hann trúði þessu ekki þegar þau sýndu honum upptöku af atvikinu. Honum leið eins og að heilinn sinn hafi verið endurræstur,“ sagði heimildarmaður ESPN.
Margir fjölmiðlar hafa sagt frá því að Victor Osimhen hafi náð aftur meðvitund í sjúkrabílnum en heimildarmaður ESPN segir það ekki vera alveg rétt.
„Hann sagði að hann hafi misst meðvitund í um þrjátíu mínútur. Það var ekki fyrr en þau komu upp á sjúkrahús sem hann áttaði sig á því hvað var að gerast í kringum hann. Það var þá sem þau sýndu honum upptökuna af atvikinu,“ sagði heimildarmaður ESPN.
Napoli's Osimhen 'lost consciousness for 30 mins' https://t.co/jaobZsnyIY
— Red Bun Football (@RBFutbolTweets) February 23, 2021
Þrátt fyrir allt þetta þá segir umræddur heimildarmaður ESPN að leikmaðurinn hafi fengið grænt ljós frá læknum sínum um að hann megi spila næsta leik Napoli sem er á móti Granada í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn.
Það hefur gengið á ýmsu hjá Osimhen að undanförnu. Hann er enn að ná sér að fullu eftir axlarmeiðsli og fékk kórónuveiruna þegar hann fór heim til Nígeríu í jólafrí.
Osimhen er annar Nígeríumaðurinn sem hnígur niður eftir að hafa fengið höfuðhögg. Á síðasta tímabili missti Taiwo Awoniyi einnig meðvitund eftir að hafa fengið höfuðhögg í leik með Mainz 05.