Dagblaðið Times fjallaði um ásakanirnar á hendur Meghan nýverið en þar er haft eftir heimildarmönnum að kvartað hafi verið yfir eineltistilburðum Meghan sem hún er sögð hafa beitt þjónustufólk þegar hún dvaldi í Kensington-höll á sínum tíma. Ásakanirnar komu fram í aðdraganda viðtals Opruh Winfrey við Meghan.
Talsmaður hertogaynjunnar segir Meghan vera „afar leiða“ yfir „nýjustu árásunum á hennar persónu,“ líkt og haft er eftir talsmanninum í erlendum fjölmiðlum. Höllin hefur brugðist við ásökununum með því að segja að höllin „umberi ekki, og muni ekki umbera, einelti né áreiti,“ að því er segir í tilkynningu.
Samkvæmt frétt Times var kvörtun um einelti og áreiti lögð fram í október 2018 þegar hertogahjónin af Sussex, Meghan og Harry, dvöldu í Kensington-höll. Times vitnar í tölvupóst frá starfsmanni hallarinnar sem var lekið í fjölmiðla þar sem fram koma ásakanir um að Meghan hafi hrakið tvo aðstoðarmenn úr höllinni.
Í yfirlýsingu frá Buckingham-höll, sem annast mannauðsmál konungsfjölskyldunnar, segir að málið sé litið alvarlegum augum og að mannauðsdeildin muni fara ýtarlega yfir málið.