Ingvi gekk nokkuð óvænt í raðir Þórs á Akureyri í síðustu viku og lék sinn fyrsta leik fyrir liðið þegar það tapaði fyrir Keflavík í Domino's deildinni í gær, 102-69.
Í viðtali við íþróttadeild eftir leikinn í Keflavík í gær sagði Ingvi að Israel hafi tjáð honum að krafta hans væri ekki lengur óskað hjá liðinu.
„Þetta kom mér á óvart eins og flestum held ég. Ég var fínn í Hattarleiknum og á sunnudaginn boðar Israel mig á fund og segir mér að finna annað lið,“ sagði Ingvi.
„Hann var að fá annan skotbakvörð og sagði mér að fara og ég fór bara til Akureyrar. Það var ekkert flóknara en það.“
Ingvi lék í rúma 21 mínútu í leiknum í gær, skoraði ellefu stig, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Hann hitti úr fjórum af átta skotum sínum utan af velli. Þórsarar eru í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig.
Í níu leikjum með Haukum í vetur var Ingvi með 10,1 stig, 3,6 fráköst og 2,9 stoðsendingar að meðaltali.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.