Ísland á afar veika von um að komast upp úr sínum riðli, eftir að hafa tapað 4-1 gegn Rússlandi og 2-0 gegn Danmörku. Aðeins með fjögurra marka sigri á Frökkum kemst Ísland áfram, svo fremi að Danmörk vinni Rússland.
„Við ætlum bara að hugsa um okkar leik og koma þeim hlutum fram sem við viljum sjá,“ sagði Kolbeinn um leikinn við Frakka. „Við viljum sýna almennilega frammistöðu og sjá hverju það skilar okkur,“ sagði Kolbeinn.
Þeir Sveinn Aron Guðjohnsen, Ísak Bergmann Jóhannesson, Willum Þór Willumsson og fyrirliðinn Jón Dagur Þorsteinsson hafa allir verið kallaðir inn í A-landsliðið og eru farnir frá Györ í Ungverjalandi, þar sem Ísland spilar á EM. Fjórmenningarnir verða í landsliðshópnum sem mætir Liechtenstein á miðvikudag en missa af leik U21-liðsins við Frakka sama dag.
Fyrst og fremst gott tækifæri fyrir þá
„Við vissum fyrir mót að þetta gæti gerst,“ sagði Kolbeinn á blaðamannafundi í dag. „Við vissum að það yrðu færslur á milli liða og vorum undirbúnir fyrir þetta. Þetta er fyrst og fremst gott tækifæri fyrir þá, að fara í A-landsliðið, og jafnframt tækifæri fyrir aðra að fylla upp í stöðurnar sem þeir skilja eftir sig,“ sagði Kolbeinn, sem þvertók fyrir að leikmönnum liði á einhvern hátt eins og EM væri lokið og að leikurinn við Frakka skipti engu máli.
Gefur okkur öllum viðurkenningu sem nýtist
Kolbeinn spilar með Lommel í belgísku B-deildinni. Þessi 21 árs gamli, fyrrverandi Bliki segir að það að spila í lokakeppni EM hafi góð áhrif á atvinnumannsferilinn, jafnvel þó að úrslitin hafi ekki verið eins og best verður á kosið:
„Þetta er stórt svið og fyrst og fremst heiður að spila fyrir landsliðið á svona stóru sviði. Ég er mjög stoltur af því. Ég held að þetta gefi öllum sem hér spila ákveðna viðurkenningu sem muni nýtast,“ sagði Kolbeinn.