Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar, sem heldur úti textaspá varðandi gasmengun vegna eldgossins. Í dag hefur verið sunnan- og suðvestanátt nærri gosstöðvunum og hægur vindur, um þrír til sex metrar á sekúndu. Því hefur mengunin borist til norðurs, yfir Vatnsleysuströnd.
Á morgun er hins vegar gert ráð fyrir suðvestanátt, átta til þrettán metrum á sekúndu, á Reykjanesskaga. Mengunin muni því berast til norðausturs yfir höfuðborgarsvæðið.
Hér má finna kort Veðurstofunnar og spálíkan sem sýnir brennisteinsmengun í byggð fyrir næstu 72 klukkustundir. Þar er einnig að finna leiðbeiningar fyrir þau sem hyggja á ferð að gosstöðvunum eða vilja senda tilkynningu um gasmengun. Þá er hægt að finna aðrar upplýsingar um loftgæði á vef Umhverfisstofnunar, loftgæði.is.
