Þetta segir Elísabet Pálmadóttir, jarðvísindamaður á Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu í morgun.
Elísabet segir að næturvakt hjá Veðurstofunni hafi tekið eftir að smá spýja hafi komið meðfram hraunjaðrinum, nálægt göngustígnum, en ekki náð vestari varnargarðinum.
„Þetta eru breytingar af og til, að það koma svona spýjur á mismunandi stöðum. En það er ennþá að leka niður í Meradali – bæði Meradali og Syðri-Meradali – og ennþá lekur niður í Nátthaga. Þetta mallar bara áfram,“ segir Elísabet.
Hún segir spýjur sem þessar séu að lauma sér hér og þar. „Í raun sjáum við kannski hlutina betur á nóttunni því þá sjáum við þessa glóð, samanborið við í dagsbirtu þegar við sjáum þetta kannski ekki alveg jafn vel á vefmyndavélunum.“