Því þar er auðvelt að gera mistök.
Hér eru nokkur góð ráð til að fylgja eftir.
1. Hvernig virkar þú á viðkomandi?
Það er enginn munur á því hvort við erum að hitta fólk í fyrsta sinn á fjarfundi eða í persónu.
Fyrstu sekúndurnar skipta mestu máli um það, hvernig við virkum á viðkomandi.
Þetta er hið margrómaða „first impression“ augnablik þar sem við viljum koma sem best fyrir.
Á fjarfundum er mikilvægt að vanmeta ekki þetta augnablik. Og þar er að mörgu að huga. Ekki aðeins það að sjá til þess að umhverfið í kringum okkur sé rétt, við séum ekki að verða fyrir truflunum á síma eða öðru, við séum ekki að mæta of seint eða séum vel til fara.
Lítil atriði eins og að taka létt spjall eða brosa í upphafi fundar skiptir líka máli.
Reyndar gefur ZOOM fundur okkur ýmisleg tækifæri umfram slík fyrstu kynni. Því við getum til dæmis verið búin að gúggla viðkomandi eða fletta upp á Facebook til að fá aðeins betri tilfinningu fyrir þeirri manneskju sem við erum að fara að hitta og kynnast.
2. Ekki horfa bara á sjálfan þig
Það hafa eflaust allir upplifað það hvernig við virðumst enda með að horfa á okkur sjálf þegar að við erum í myndaspjalli.
Rétta leiðin er hins vegar að reyna að mynda augnsamband.
Besta leiðin til að gera það, er að stilla tölvuna þannig að myndavélin sé í augnhæð við þig.
Síðan er ágætt að miða við að horfa á myndavélina í að minnsta kosti 60% af tímanum.
Það gefur viðmælandanum þínum þá tilfinningu að þú sért að horfa í augun á honum/henni, frekar en að horfa á sjálfan þig.
Flestum finnst hins vegar gott að sjá sjálfan sig á fjarfundum og geta þannig metið bæði útlit og líkamsbeitingu.
Í stað þess að gera það á meðan þú ert að tala við annað fólk, er mælt með því að þú hafir þig til og mátir þig í setu og stellingu við myndavél, áður en samtalið hefst.
3. Hendur, setustaða og svipbrigði
Að brosa er mjög mikilvægt á fjarfundum. En einnig líka hvernig þú hreyfir þig.
Sem dæmi má nefna hafa rannsóknir sýnt að þeir TED fyrirlestrar sem eru hvað vinsælastir, eru fyrirlestrar þar sem fyrirlesarinn notar hendurnar mikið þegar hann/hún er að tala.
Þess vegna er mælt með því að þú nýtir líkamshreyfingar að einhverju marki til að tjá þig. Til dæmis hendurnar, án þess þó að ofgera það því þú ert í nærmynd.
Að nota hendurnar til að leggja áherslu á mál sitt, er ekki það sama og að vera á iði í stólnum fyrir framan myndavélina.
Þá skiptir líka máli að þú sitjir upprétt við tölvuna, en myndir ekki kryppu á bakið eða að setustaðan þín sé ólík þeirri sem þú værir í ef þú væri að hitta ókunnugt fólk á fundi.
Þú þarft að bera þig eins að.
Það þýðir meðal annars að það sjáist að þú ert með athyglina á þeim umræðum sem eru að fara fram.
Þú sýnir jafnvel áhugann með svipbrigðum eða með því að kinka kolli.
Og aftur: Muna að brosa!
4. Hlutlausi bakgrunnurinn
Sjaldan er góð vísa of oft kveðin og hér er enn og aftur minnt á það hversu miklu máli það skiptir að bakgrunnur á fjarfundum sé réttur.
Frekar hlutlaus og lýsing góð.
Ef það eru einhverjir munir sem sjást í mynd, þurfa þeir að vera munir sem trufla ekki augað og virka ekki sem ,,of mikið“ á það fólk sem þú ert að ræða við. Plöntur virka til dæmis þægilega á flesta og hafa ekki truflandi áhrif.