Ýmir Örn Gíslason og félagar í Rhein-Neckar Löwen unnu stórsgiur á Arnari Frey Arnarssyni og félögum í Melsungen 31-22 og Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk gegn fyrir Lemgo sem vann fjögurra marka sigur gegn Coburg.
Rhein-Neckar Löwen setti tóninn snemma og um miðjan fyrri hálfleik var munurinn orðinn sex mörk. Löwen menn hæeldu forskotinu út hálfleikinn og þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 15-10.
Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark í liði Löwen sem steig aftur á bensíngjöfina í seinni hálfleik og náði mest 11 marka forskoti. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað í liði Melsungen og lokatölur 31-22, Löwen í vil.
Bjarki Már Elísson var markahæsti maður vallarins með sjö mörk þegar Lemgo lagði Corburg 27-23. Staðan var 10-9, Lemgo í vil í hálfleik, en um miðjan seinni hálfleik náðu Bjarki og félagar þriggja marka forskoti og litu aldrei um öxl.
Tveir aðrir leikir voru spilaðir á sama tíma þar sem Füchse Berlin lagði Nordhorn-Lingen 29-25 og Hannover-Burgdorf rétt marði Erlangen 27-26.